Eusebios minnst - myndband

Eusebio þrumar að marki í Evrópuleik Benfica og AC Milan …
Eusebio þrumar að marki í Evrópuleik Benfica og AC Milan á Wembley 1965. AFP

Portúgalska knattspyrnugoðsögnin Eusebio lést í dag 71 árs að aldri. Hann er talinn einn albesti leikmaður sögunnar. Hann var markahæsti leikmaður HM á Englandi 1966 og markahæsti leikmaður portúgölsku deildarinnar árlega frá 1964-1973 svo fátt eitt sé nefnt.

Stórmenni í knattspyrnuheiminum, sérstaklega samlandar hans frá Portúgal, hafa vottað honum virðingu í dag, bæði með yfirlýsingum og einnig nýtt samfélagsmiðla.

Cristiano Ronaldo, landsliðsfyrirliði Portúgals, skrifar á facebooksíðu sína: „Minning Eusebios lifir að eilífu. Hvíldu í friði.“

Luis Figo, önnur goðsögn í Portúgal, ritar á sína twittersíðu: „Kóngurinn! Mikill missir fyrir okkur öll. Sá merkasti!“

Samuel Eto'o, Kamerúninn í liði Chelsea, skrifar: „Afríka, Portúgal og heimurinn allur varð fyrir miklum missi. Eusebio var ekki bara ótrúlegur leikmaður heldur einstakur maður. Hvíl í friði, stóri bróðir.“

Og kollega hans hjá Chelsea, Fernando Torres, skrifar: „Hvíl í friði Eusebio. Einn af þeim allra bestu í sögunni.“

Drengskapurinn á Wembley

Eitt eftirminnilegasta atvikið á ferli Eusebios var þegar hann lét Alex Stepney, markvörð Manchester United, verja frá sér þrumuskot af stuttu færi í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1968.

Portúgalinn gat tryggt sínum mönnum titilinn með marki en í staðinn fór leikurinn í framlengingu þar sem United varð fyrsta enska liðið til að vinna Evrópukeppnina.

Í stað þess að svekkja sig á klúðrinu eða hengja haus sýndi Eusebio mikinn drengskap og klappaði Stepney á bakið til merkis um hrós fyrir þessa flottu markvörslu. Þetta þótti sýna hvaða mann Portúgalinn hafði að geyma.

„Ég sá ekki hvað hann gerði á þeim tíma. Það var svo lítið eftir af leiknum þannig að ég var of einbeittur. Ég varði skotið en sá hann standa fyrir framan mig. Það var ekki fyrr en síðar að ég sá hvað hann hafði gert,“ segir Stepney er hann rifjar upp atvikið.

„Sú staðreynd að hann stóð þarna og klappaði áður en hann hljóp í burtu er til merkis um hvernig maður hann var. Hann virti allt sem við gerðum og ég vil meina við höfum verið eins,“ segir Alex Stepney.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá markvörslu Stepneys og drengskap Eusebios á Wembley 1968 en það kemur fyrir eftir 3 mínútur og 25 sekúndur.

Eusebio og George Best í úrslitaleik Evrópukeppninnar 1968 á Wembley.
Eusebio og George Best í úrslitaleik Evrópukeppninnar 1968 á Wembley. EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert