„Það er erfitt að vera Messi“

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Gerardo Martino þjálfari Spánarmeistara Barcelona kemur Lionel Messi til varnar en Argentínumaðurinn hefur verið gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu með Börsungum þegar þeir féllu úr leik í Meistaradeildinni með tapi gegn Atlético Madrid í fyrrakvöld.

Messi, sem hefur oftar en ekki farið á kostum með Börsungum í Meistaradeildinni, náði sér ekki á strik í leiknum á móti Atlético og var mjög ólíkur sjálfum sér.

„Það er svo erfitt að vera Messi í þessu lífi og spila fótbolta. Í grundvallaratriðum vegna þess að allt er þetta ósanngjarnt. Þegar hann spilar ekki eins vel og fólk býst við af honum þá endar það með því að gangrýna hann harkalega. Ég held að það sé mjög erfitt að vera hann,“ sagði Martino á fréttamannafundi í dag en hann kemur frá bænum Rosario í Argentínu eins og Messi.

Barcelona er enn með í baráttu um tvo titla á Spáni. Liðið er í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Atlético Marid, og í næstu viku mætast Barcelona og Real Madrid í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar sem fram fer í Valencia.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert