„Fótbolti er gerviviðburður með mikið skemmtanagildi. Maður verður að horfa á leikinn með þeim augum,“ segir Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands, í viðtali við Áfram - á besta aldri sem fylgir Morgunblaðinu í dag. „Lífið heldur alltaf áfram.“
Þetta er svar Lars við spurningu geðlæknisins Óttars Guðmundssonar, sem tók viðtalið, um það hvernig honum gekk að hrista af sér tap íslenska landsliðsins fyrir Króötum í Zagreb en með því urðu vonir Íslands að komast á heimsmeistaramótið í Brasilíu engar. „Miklu skiptir að taka þessu ekki of alvarlega,“ segir Lars einnig.
Spurður að því hvað það hafi verið sem klúðraðist í Zagreb segir Lars: „Álagið og væntingarnar voru of miklar. Leikmennirnir voru of stressaðir og allir voru hræddir við að gera mistök. Þá þorir enginn að taka af skarið og menn spila allt of varfærnislega. Það er kannski mér að kenna. Mín sök liggur í því að hafa ekki tekist að stappa í þá stálinu fyri rleik og í hléinu.“
Meðal þess sem Lars ræðir er einkalíf hans, Zlatan Ibrahimovic og íslensku leikmennirnir. „Leikmennirnir sjálfir eru ótrúlega agaðir og fónfúsir gagnvart landsliðinu. Þeir kvarta aldrei og samstarfið hefur gengið mjög vel. Landsliðið er ungt og á framtíðina fyrir sér,“ segir Lars um landsliðsmennina íslensku.
Hann segir íslensku landsliðsmennina ótrúlega þolinmóða og sveigjanlega. „KSÍ á ekki eins mikla peninga og önnur knattspyrnusambönd sem þýðir að leikmenn annarra þjóða fara á milli landa í leiguflugvélum en við förum með áætlunarflugi með tilheyrandi biðtíma og óþægindum. En aldrei heyri ég leikmennina kvarta þótt við þurfum að bíða á flugvöllum klukkustundum saman.“