Íslenska U21-landsliðið í knattspyrnu á enn raunhæfa möguleika á að komast í umspil um sæti á EM eftir 4:0-sigurinn á Armeníu í gær í næstsíðustu umferðinni.
Keppt er í 10 riðlum í undankeppninni og komast 14 lið áfram í úrslitakeppnina, það er að segja sigurvegararnir 10 og svo 4 lið sem hafa bestan árangur í 2. sæti.
Ísland er með 15 stig í sínum riðli og öruggt um 2. sætið en Frakkar koma til með að vinna riðilinn. Þá er bara spurningin hvort árangurinn í samanburði við liðin í 2. sæti annarra riðla er nægilega góður.
Ísland á nú einn leik eftir, gegn Frakklandi ytra á mánudaginn. Líklega þarf Ísland að ná að minnsta kosti jafntefli í þeim leik til að komast í umspilið, og í raun gæti vel verið að aðeins sigur myndi duga. Hugsanlega gæti liðið komist í umspil þrátt fyrir tap en það verður að teljast afar hæpið.
Meðfylgjandi tafla sýnir stöðuna hjá liðum í 2. sæti hvers riðils. Eins og sjá má er Ísland sem stendur í hópi fjögurra efstu liða. Þegar rýnt er í hina riðlana, og ef miðað er við tap Íslands í Frakklandi, má fastlega búast við að Belgía og Ísrael kæmust upp fyrir Ísland í auðveldum lokaleikjum sínum. Slóvakía og Úkraína færu einnig líklega upp fyrir Ísland og þar með væri vonin úr sögunni.
Úrslitin í riðlunum ráðast 8. og 9. september.