Ísland verður í neðri styrkleikaflokki þegar dregið verður í umspili um sæti í úrslitakeppni Evrópumóts U21 ára landsliða í Nyon í Sviss á föstudaginn.
Ísland mætir einu af þessum liðum í umspilinu: Spánn, Ítalía, England, Þýskaland, Portúgal eða Danmörk.
Leikirnir í umspilinu fara fram 8. og 14. október en úrslitakeppnin verður haldin í Tékklandi 17.-30. júní á næsta ári þar sem átta lið leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn.
Liðin í efri styrkleikaflokki: Spánn, Frakkland, England, Danmörk, Þýskaland, Portúgal, Ítalía.
Liðin í neðri styrkleikaflokki: Svíþjóð, Slóvakía, Króatía, Úkraína, Holland, Serbía, ÍSLAND.
*Lið sem voru í sama riðli geta ekki dregist saman þannig að Íslendingar geta ekki mætt Frökkum.
Þetta er í annað sinn sem Ísland kemst í umspil fyrir lokakeppni EM 21 árs landsliða. Það gerðist síðast haustið 2010. Þá sló Ísland lið Skotlands út í umspilinu og vann sér þar með þátttökurétt í lokakeppninni sem fór fram í Danmörku sumarið 2011.