Björn Bergmann Sigurðarson tryggði í gær Molde norska meistaratitilinn í knattspyrnu þegar hann skoraði sigurmark liðsins gegn Viking á útivelli, 2:1, skömmu eftir að hann kom inná sem varamaður.
Með sigrinum náði Molde þrettán stiga forystu þegar fjórum umferðum er ólokið, er með 65 stig gegn 52 hjá Odd og 48 hjá Rosenborg, og þar með fögnuðu leikmenn liðsins meistaratitlinum innilega eftir heimkomuna til Molde í gærkvöld.
„Þetta er það magnaðasta sem ég hef upplifað. Ég hef aldrei áður unnið titil svo þetta var stórkostlegt," sagði Björn við VG eftir leikinn en hann hefur misst af stórum hluta tímabilsins vegna bakmeiðsla. Molde fékk hann lánaðan frá Wolves fyrir tímabilið en Björn er samningsbundinn enska félaginu til 2016.
„Þetta er búið að vera erfitt tímabil með löngu hléi. Ég spilaði tvo leiki og meiddist í kjölfarið. Sem betur fer hef ég náð að spila talsvert í síðustu leikjum og er að verða góður af meiðslunum," sagði Björn sem veit ekki hvað framtíðin býr í skauti sér.
„Ég er samningsbundinn Wolves til 2016 og veit ekki hvort ég fer þangað eða verð hérna um kyrrt. En það er fínt að vera í Molde og hér á ég marga vini," sagði Björn Bergmann.
Þeir Sverrir Ingi Ingason, Indriði Sigurðsson, Björn Daníel Sverrisson, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Jón Daði Böðvarsson hófu allir leik fyrir Viking.
Steinþór fór af velli á 68. mínútu og Jón Daði á 86. mínútu en aðrir spiluðu allan leikinn. Viking er í 8. sæti með 32 stig eftir tapið