Lagerbäck: Mun lægri laun hjá KSÍ

Íslenska landsliðinu hefur gengið stórkostlega síðan Lars Lagerbäck var ráðinn …
Íslenska landsliðinu hefur gengið stórkostlega síðan Lars Lagerbäck var ráðinn til starfa. mbl.is/Eggert

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara karla í knattspyrnu, segir mikinn mun á öllum aðbúnaði og launum sem fylgja því að þjálfa Ísland í samanburði við það að þjálfa Svíþjóð eins og hann gerði á árunum 2000-2009.

Þetta sagði Lagerbäck í viðtali við sænska blaðið Expressen í aðdraganda leikjanna við Lettland á föstudagskvöld og Holland á mánudagskvöld, í undankeppni EM.

„Knattspyrnusambandið er rekið af litlum efnum. Ísland getur ekki haft sömu umgjörð og víða annars staðar. Á skrifstofunni starfa 18 manns en hjá sænska knattspyrnusambandinu starfa 120-130 manns,“ sagði Lagerbäck.

„Stærsti munurinn felst í ferðalögunum. Við höfum ferðast í einkaflugi einu sinni síðan ég tók við landsliðinu. Annars ferðumst við með almennu flugi og það tekur ansi mikinn tíma sem er mikill galli,“ sagði Lagerbäck. Aðspurður hvort mikill munur sé á laununum sem hann fái hjá KSÍ, miðað við þau sem hann fékk í Svíþjóð, svaraði Lagerbäck:

„Það er klárlega munur þar á. Ég þéna umtalsvert minna núna en peningarnir eru ekki mikilvægir. Ég hef alveg í mig og á. En svo má hafa í huga að það eru engin rosalaun í Svíþjóð heldur, í samanburði við önnur lönd. Ég held að [Sven-Göran] Eriksson hafi fengið jafnmikið á 2-3 vikum með enska landsliðið og ég fékk í árslaun í Svíþjóð,“ sagði Lagerbäck.

Ekki raunhæft að taka aftur við sænska landsliðinu

Þjálfarinn var einnig spurður hve stóran þátt hann ætti í uppgangi íslenska liðsins síðustu misseri en liðið hefur flogið upp um 97 sæti á styrkleikalista FIFA á síðustu tveimur árum.

„Það er erfitt að segja. Ég á einhvern þátt í því. Það sem vantaði hjá Íslandi, líkt og reyndar hjá Svíþjóð, er alþjóðleg reynsla. Að því leyti hef ég þrátt fyrir allt mikið fram að færa,“ sagði Lagerbäck.

Lagerbäck er með samning við KSÍ sem gildir fram yfir lokakeppni EM 2016, en gæti hann hugsað sér að taka aftur við sænska landsliðinu síðar meir?

„Það er ekki raunhæft að það gerist. Ég held að maður ætti ekki að snúa aftur í það starf. En ef ég er spurður um eitthvað sem mér finnst spennandi þá hlusta ég auðvitað,“ sagði Lagerbäck, sem kveðst vilja sjá Henrik Larsson taka við sænska landsliðinu þegar fram líða stundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert