Birkir Már Sævarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur komist að munnlegu samkomulagi við sænska félagið Hammarby um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili. Birkir staðfesti þetta við mbl.is í morgun.
Birkir fer á næstunni í læknisskoðun hjá sænska félaginu og að svo búnu gerir hann ráð fyrir því að ganga frá þriggja ára samningi. Hammarby vann sér sæti í efstu deild í Svíþjóð á árinu en félagið er staðsett í Stokkhólmi. Pétur Marteinsson lék með liðinu við góðan orðstír frá 1996-1998 en Hammarby varð síðast sænskur meistari árið 2001.
Birkir er uppalinn í Val en hélt til Noregs árið 2008 og hefur spilað þar með Brann í efstu deild en liðið féll í vikunni niður í norsku B-deildina.
Birkir varð þrítugur fyrr í þessum mánuði og hefur átt fast sæti í íslenska landsliðshópnum síðustu árin en hann hefur alls leikið 45 A-landsleiki.