Létu mark Maradona standa og ræðast ekki við

Diego Maradona.
Diego Maradona. AFP

Markið sem Diego Armando Maradona skoraði fyrir Argentínu gegn Englandi með „hönd Guðs“ á HM í Mexíkó árið 1986 er eitt frægasta mark fótboltasögunnar. Dómari leiksins og línuvörðurinn á þeim vallarhelmingi sem markið var skorað, ræðast ekki við og hafa ekki gert frá því í búningsklefanum að leiknum loknum. Er þetta fullyrt í blaðagrein í dag.

Maradona skoraði bæði mörkin í 2:1 sigri Argentínu og komst liðið þar með í undanúrslitin og vann keppnina þegar uppi var staðið. Markið, sem ekki hefði átt að standa, var fyrsta mark leiksins og kom á 51. mínútu. Dómarinn Ali Bin Nasser frá Túnis og línuvörðurinn Bogdan Dotchev frá Búlgaríu litu hvor á annan, hvorugur tók af skarið og markið stóð. Ljóst var á viðbrögðum Englendinga að eitthvað umdeilt hafði átt sér stað en þeir félagar virðast einfaldlega ekki hafa séð þetta vel tímasetta útspil Maradona. Hinn línuvörðurinn í leiknum, Berny Ulloa frá Kosta Ríka, greindi frá því löngu síðar í viðtali að Bin Nasser hafi verið mjög niðurdreginn eftir að hann sjá sjónvarpsupptökurnar á hótelinu um kvöldið.

Búlgarinn Dotchev dró sig í hlé frá fótbolta og fluttist til smábæjar í heimalandinu. Hefur hann lítið látið fyrir sér fara og greindi frá því í viðtali að verstu viðbrögðin sem hann fékk við dómgæslunni í leiknum hafi verið þegar hann snéri heim til Búlgaríu. Þar hafi fólk litið á ábyrgð hans á atvikinu sem þjóðarskömm.

Túnisbúinn Bin Nasser hélt hins vegar áfram að starfa við knattspyrnu þó hann hafi ekki dæmt fleiri HM-leiki frekar en Búlgarinn. Árið 2010 var hann skipaður í nefnd sem fékk það hlutverk að endurskipuleggja íþróttina í Túnis. Sonur hans fetaði í fótspor föður síns og dæmir knattspyrnuleiki.

Ekki er vitað hvað þeim fór á milli í búningsklefanum að leiknum loknum. Kosturinn var sá að báðir eru prýðilegir tungumálamenn en gallinn var sá að þeir skilja ekki sömu tungumálin. Túnisbúinn talar fína ensku og frönsku en Búlgarinn talar þýsku og spænsku. Síðast ræddust þeir því við með hjálp túlks frá FIFA í búningsklefanum að leiknum loknum en fram að leiknum örlagaríka höfðu þeir verið ágætir mátar eftir því sem fram kemur í grein í breska blaðinu The Guardian í dag.

Í gegnum tíðina hafa þeir skellt skuldinni hvor á annan í fjölmiðlum. Ekki svo að skilja að þeir hafi oft viljað tjá sig um málið en til eru nokkur viðtöl við þá á þeim 28 árum sem liðin eru. Í stuttu máli segir Bin Nasser að Dotchev hafi verið í betri aðstöðu til að sjá atvikið og fyrst hann hafi ekki brugðist við á línunni þá hafi hann látið markið standa. Hafi það verið í takti við áherslur FIFA í mótinu. Dotchev segir á hinn bóginn að á þessum tíma hafi línuvörðum ekki verið leyft að ræða sérstök atvik við dómara. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert