Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er í hópi þeirra fjögurra sem koma til greina sem besta knattspyrnukona bandaríska háskólaboltans í vetur.
Tilnefningin er til hinna svokölluðu Honda Sports-verðlauna, en Honda er aðalstyrktaraðili þeirra. Verði Dagný útnefnd besta knattspyrnukona háskólaboltans á hún möguleika á að verða valin besta íþróttakona í öllum bandarísku háskólagreinunum. Þrjár knattspyrnukonur hafa afrekað það, þær Mia Hamm árið 1994, Cindy Daws árið 1997 og Christine Sinclair árið 2006. Algengast hefur verið að körfuknattleikskona vinni, frá því að verðlaunin voru fyrst veitt árið 1977.
Dagný var fyrirliði Florida State háskólans sem varð bandarískur meistari fyrir skömmu. Hún leiddi liðið innan sem utan vallar og skoraði 16 mörk, þar af 5 úrslitamörk. Hún var valin í úrvalslið NSCAA, og hafði áður verið valin mikilvægasti leikmaðurinn í atlantshafsdeildinni, svæðisdeildinni sem Florida State keppti í áður en liðið fór í úrslitakeppnina við önnur bestu háskólalið Bandaríkjanna.