Knattspyrnukappinn Eggert Gunnþór Jónsson vonast til finna sér nýtt lið þegar nýtt ár gengur í garð en Eskfirðingurinn er að jafna sig eftir aðgerð sem hann gekkst undir vegna meiðsla í nára.
„Ég er allur að koma til. Ég er byrjaður að æfa og geri mér góðar vonir um að meiðslin séu nú að baki,“ sagði Eggert Gunnþór við Morgunblaðið í gær.
Eggert er án félags en hann fékk samningi sínum rift við portúgalska liðið Belenenses seint í sumar. Meiðslin í náranum voru að angra hann þann tíma sem hann var á mála hjá félaginu og hann missti mikið úr síðasta vetur.
„Síðustu mánuðir hafa farið í reyna að fá mig góðan af þessum meiðslum og nú horfir allt til betri vegar. Ég stefni á að vera kominn á fullt í næsta mánuði og ég ætla mér að komast aftur út í atvinnumennskuna,“ sagði Eggert Gunnþór, sem er 26 ára gamall og hóf sinn atvinnumannaferil hjá Hearts í Edinborg í Skotlandi aðeins 16 ára gamall. Þaðan lá leið hans til Wolves, var lánaður um skeið til Charlton. Í fyrra samdi hann við Belenenses en náði ekki að spila nema 11 deildaleiki með liðinu.
Sjá allt viðtalið við Eggert í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag