Norska úrvalsdeildarliðið Viking hafnaði tilboði frá danska liðinu Nordsjælland í miðvörðinn Sverri Inga Ingason.
Norska blaðið Stavanger Aftenblad greinir frá þessu í dag en Nordsjælland, sem Ólafur H. Kristjánsson þjálfar, er sagt hafa boðið á bilinu 50-70 milljónir króna en því tilboði var hafnað af forráðamönnum Viking. Sverrir lék áður undir stjórn Ólafs hjá Breiðabliki.
„Það er rétt að við fengum fyrirspurn frá Nordsjælland en við sögðum nei,“ segir Arne Larsen Ökland yfirmaður knattspyrnumála hjá Viking við Stavanger Aftenblad.
Viking keypti Sverri Inga frá Breiðabliki í desember 2013 og greiddi fyrir hann 1,5 milljón norskra króna sem jafngildir 26 milljónum íslenskra króna.
Sverrir Ingi hefur verið fastamaður í liði Viking og spilaði í 90 mínútur í 29 leikjum liðsins af 30 í deildinni á síðustu leiktíð. Samningur hans við norska liðið gildir út leiktíðina 2016.