Kasakstan fær liðsauka fyrir Íslandsleik

Alexander Merkel.
Alexander Merkel.

Kasakstan, næsti mótherji Íslands í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu, hefur fengið liðsauka fyrir viðureign þjóðanna sem fram fer í Astana, höfuðborg Kasakstans, laugardaginn 28. mars.

Miðjumaðurinn Alexander Merkel, sem leikur með Grasshoppers í Sviss en er í láni þar frá Udinese á Ítalíu, ákvað fyrr í þessum mánuði að gefa kost á sér í landslið Kasakstan, í stað Þýskalands, og er í 28 manna landsliðshópi sem Júrí Krasnozhan, þjálfari Kasakka, tilkynnti í gær.

Merkel er 23 ára gamall og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Þýskalands, frá U15 til U20 ára. Hann fæddist í Kasakstan en foreldrar hans eru af þýsku bergi brotnir og fjölskyldan flutti til Þýskalands þegar Merkel var sex ára gamall.

Hann ólst upp hjá Stuttgart frá 11 ára aldri en fór 16 ára til AC Milan og náði að leika 9 leiki með því stóra félagi A-deildinni. Þaðan fór hann til Genoa, spilaði 19 deildaleiki þar, en gekk til liðs við Udinese í ársbyrjun 2013 og samdi til fimm ára.

Þaðan var hann lánaður til Watford á Englandi á síðasta tímabili, var þar frá áramótum til vors og spilaði ellefu leiki í B-deildinni. Hann var síðan lánaður til Grasshoppers síðasta sumar og verður þar út þetta tímabil.

Krasnozhan hefur gert talsverðar breytingar á landsliðshópi sínum. Hann notaði 25 leikmenn í leikjunum fjórum í undankeppni EM í haust, gegn Lettlandi, Hollandi, Tékklandi og Tyrklandi, en valdi sextán þeirra í gær og bætti við tólf nýjum mönnum, sem flestir eru nýliðar. Hann mun þó væntanlega stilla upp áþekku liði og lék síðasta leik, 3:1 tapleik gegn Tyrkjum á útivelli, en tólf af þeim fjórtán sem komu við sögu gegn Tyrkjum eru í hópnum núna.

Kasakkar mæta Rússum í vináttulandsleik í Khimki þremur dögum eftir leikinn gegn Íslandi og því valdi Krasnozhan þetta stóran hóp.

Aðeins tveir leikmenn í 28 manna hópnum leika með liðum utan Kasakstans. Það eru áðurnefndur Merkel og Konstantin Engel, 26 ára miðjumaður, sem leikur með Ingolstadt í þýsku B-deildinni. Engel hefur ekkert spilað í þessari undankeppni en á 8 landsleiki að baki.

Flestir landsliðsmanna Kasakstan koma frá meistaraliðinu Astana, tíu talsins, og verða því á heimavelli sínum gegn Íslandi. Fimm leika með Kairat, fimm með Ordabasy og þrír með Aktobe en þessi lið urðu í fjórum efstu sætunum í Kasakstan á tímabilinu 2014.

Keppnistímabilið 2015 hófst fyrr í þessum mánuði og fjórða umferð deildarinnar verður spiluð um næstu helgi, en landslið Kasakstan kemur síðan saman í Astana á mánudaginn kemur, 23. mars. Sama dag eru íslensku landsliðsmennirnir flestir væntanlegir þangað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka