Barcelona er komið með fjögurra stiga forystu á toppi spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu eftir 2:1 sigur á Real Madríd í stórleik deildarinnar, El Clásico, á Nývangi í kvöld. Eins og venjulega var hart barist og alls urðu gulu spjöldin ellefu talsins.
Gestirnir frá Madríd byrjuðu af krafti, og strax á tólftu mínútu átti Cristiano Ronaldo skot í þverslá heimamanna. Það voru hins vegar Börsungar sem skoruðu fyrsta markið, og þar var að verki franski varnarmaðurinn Jeremy Mathieu með skalla eftir aukaspyrnu Lionels Messi.
Eftir rúmlega hálftíma leik jafnaði Ronaldo hins vegar metin eftir frábært spil Real. Luka Modric sendi boltann þá inn á Karim Benzema, sem sendi hann áfram með hælnum á Ronaldo sem skoraði. 1:1 í hálfleik.
Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik komust Börsungar yfir á ný, þegar Luis Suárez skoraði eftir langa sendingu fram völlinn frá Dani Alves. Suárez tók vel á móti boltanum með varnarmenn í sér og kláraði færið glæsilega.
Bæði lið fengu sín færi eftir þetta, og meðal annars varði Claudio Bravo meistaralega í marki Barcelona eftir skot frá Benzema, þar sem leikmenn Real lögðu allt í sölurnar. Iker Casillas hafði sömuleiðis nóg að gera í marki Real. Þrátt fyrir færi á báða bóga urðu mörkin ekki fleiri, lokatölur 2:1.
Barcelona hefur nú 68 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum meira en Real. Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.
90. Leik lokið. Þetta er í höfn hjá Börsungum!
90. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
85. Casillas er að halda Real inni í þessum leik! Í tvígang hefur hann varið meistaralega, og Börsungar geta nagað sig í handarbökin fái þeir mörk í bakið eftir þessi færi.
79. Benzema með þrumuskot en Claudio Bravo varði meistaralega!
72. Messi nálægt því að nánast klára þetta fyrir Börsunga, en hann keyrði af krafti í átt að teignum og lét vaða en boltinn naumlega framhjá.
60. Einhverjar stimpingar á milli Ronaldo og Javier Macherano. Ronaldo virðist sparka á eftir honum og rífur svo aðeins í hann þar sem hann liggur, en ekkert er gert.
56. MARK! Staðan er 2:1. Börsungar komast yfir á ný. Vörn Real Madrid var ekki alveg með á nótunum, Dani Alves með sendingu innfyrir hana þar sem Luis Suárez tók frábærlega á móti boltanum og lagði boltann skemmtilega í netið.
46. Síðari hálfleikur er hafinn.
45. Hálfleikur. Mikið fjör á Nývangi og það heldur eflaust áfram eftir hlé!
40. Mark dæmt af Real!! Ronaldo kemur boltanum áfram inn á teiginn þar sem Gareth Bale skilar boltanum í netið, en er dæmdur rangstæður. Við endursýningu sést hins vegar að það er rangur dómur!
31. Mark! Staðan er 1:1. Madrídingar jafna! Börsungar voru í stórsókn á hinum enda vallarins en það er Cristiano Ronaldo sem jafnar metin eftir stórkostlega hælsendingu frá Benzema. Þvílíkir taktar!
20. Mark! Staðan er 1:0. Eftir aukaspyrnu frá Lionel Messi skallar Jeremy Mathieu í netið af markteig. Sá valdi augnablikið til að skora fyrsta deildarmark sitt fyrir félagið!
12. Sláin! Þetta byrjar af krafti! Karim Benzema var með boltann utarlega í teignum, vippaði inn á markteig þar sem Cristiano Ronaldo náði til hans og þrumaði í þverslána!
1. Leikurinn er hafinn.
0. Viðureign þessara liða sem jafnan ber heitið El Clásico, er sú 229. í röðinni í kvöld. Ágætt!
Lið Barcelona: Bravo; Alves, Pique, Mathieu, Alba; Rakitic, Mascherano, Iniesta; Messi, Suarez, Neymar.
Lið Real Madrid: Casillas; Carvajal, Pepe, Ramos, Marcelo; Kroos, Modrić, Isco; Bale, Ronaldo, Benzema.