Landsliðframherjinn Jón Daði Böðvarsson skoraði þrennu á fimm mínútum undir lok leiks Ålgård og Viking í norsku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag.
Viking vann 7:0-sigur á Ålgård í þessari 1. umferð bikarkeppninnar en Ålgård leikur í norsku D-deildinni. Jón Daði kom inná sem varamaður á 73. mínútu, í stöðunni 4:0, og skoraði þrjú síðustu mörkin á fimm mínútna kafla í lokin. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék allan leikinn fyrir Viking en Björn Daníel Sverrisson er meiddur og fyrirliðinn Indriði Sigurðsson var ekki heldur með. Alexander Már Hallgrímsson, fyrrverandi leikmaður Dalvíkur/Reynis, lék seinni hálfleik fyrir Ålgärd og Kristófer Atli Bjarnason, bróðir Birkis Bjarnasonar landsliðsmanns, lék síðasta korterið fyrir liðið.
Finnur Orri Margeirsson lék allan leikinn fyrir Lilleström og lagði upp eitt mark í 9:3-útisigri á D-deildarliði Rælingen. Árni Vilhjálmsson var ekki í leikmannahópi Rúnars Kristinssonar þjálfara en annar framherji, Fred Friday, skoraði fernu.
Hannes Þór Halldórsson, fyrirliði og markvörður Sandnes Ulf, komst einnig áfram í 2. umferð en Sandnes, sem leikur í B-deildinni, vann D-deildarlið Riska á útivelli, 2:1.
Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn fyrir Aalesund sem vann Stryn á útivelli, 3:1. Aron Elís Þrándarson var ekki með liðinu.
Hlynur Atli Magnússon og félagar í Florø féllu úr leik fyrir Varegg 4:2. Hlynur Atli spilaði fyrri hálfleikinn fyrir Florø.
Þá var Guðmundur Steinn Hafsteinsson í byrjunarliði Notodden sem vann Holmen, 1:0 en Eyþór Guðjónsson var á varamannabekknum hjá Holmen.
Loks unnu Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg 3:0-útisigur á Vuku.