Silfur ekki ásættanlegt

Rúrik Gíslason í leik með FC Köbenhavn í Evrópudeildinni.
Rúrik Gíslason í leik með FC Köbenhavn í Evrópudeildinni. AFP

Rúrik Gíslason, Björn Bergmann Sigurðarson og Eggert Gunnþór Jónsson verða allir í sviðsljósinu á þjóðarleikvangi Dana, Parken, í dag þegar FC Köbenhavn og Vestsjælland mætast þar í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Þeir verða örugglega allir í byrjunarliðum félaganna sem hafa átt ólíku gengi að fagna. FC Köbenhavn er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar en FC Vestsjælland er næstneðst og sex stigum frá því að komast úr fallsæti.

„Við erum vissulega taldir líklegra liðið á pappírunum, og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að færa félaginu bikarinn, en fyrir leikmenn Vestsjælland er þetta leikur lífsins. Við verðum að mæta til leiks með sama hugarfari,“ sagði Rúrik við Morgunblaðið en hann verður væntanlega á hægri kantinum og Björn Bergmann í framlínunni hjá FCK í dag.

Eggert er hinsvegar í stóru hlutverki hjá liði Vestsjælland eftir að hann kom þangað um áramótin. „Já, Eggert er óhemju mikilvægur fyrir þeirra lið og er kominn í virkilega gott form. Hann var í banni þegar við unnum þá 1:0 síðasta mánudag í deildinni og það styrkir þá mikið að fá hann aftur inn,“ sagði Rúrik. Í röðum Vestsjælland er einnig Frederik Schram, markvörður úr 21-árs landsliði Íslands, en hann hefur verið varamarkvörður liðsins.

Sjá allt viðtalið við Rúrik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert