Indriði kveður Noreg sem methafi

Indriði Sigurðsson í landsleik.
Indriði Sigurðsson í landsleik. mbl.is/Eggert

Indriði Sigurðsson kveður norska knattspyrnuliðið Viking frá Stavanger í haust sem leikjahæsti Íslendingurinn frá upphafi í norsku úrvalsdeildinni. Indriði tilkynnti í gær að hann myndi yfirgefa Viking í haust og ljúka ferlinum heima á Íslandi, þar sem hann lék síðast með KR-ingum árið 1999.

Þetta er þrettánda tímabil Indriða í úrvalsdeildinni í Noregi, með þremur liðum. Hann lék með Lilleström frá 2000 til 2003 og með Lyn frá 2006 til 2009, en frá þeim tíma hefur hann verið leikmaður Viking. Indriði hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin keppnistímabil. Hann lék í þrjú ár með Genk í Belgíu en sneri aftur til Noregs árið 2006.

Indriði á að baki 274 leiki með liðunum þremur í deildinni og gæti því mest farið í 295 leiki áður en hann flytur búferlum að tímabilinu loknu.

Nálgast 400 leikina

Til viðbótar lék Indriði 25 deildaleiki með KR og 77 með Genk og hann á því að baki 376 deildaleiki á átján ára ferli í meistaraflokki. Indriði var aðeins 16 ára þegar hann lék 9 leiki með KR í úrvalsdeildinni árið 1998 og ári síðar spilaði hann 16 af 18 leikjum liðsins þegar það vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 31 ár. Eftir það lá leiðin til Noregs.

Indriði sagði í viðtali við mbl.is í gær að hann drægi ekki dul á að sig langaði mest til að koma aftur til KR, enda væri það sitt uppeldisfélag og fjölskyldutengslin þangað væru afar sterk.

Árni lék líka 13 tímabil

Aðeins einn annar Íslendingur hefur spilað þrettán ár í deildinni. Það er Árni Gautur Arason, sem varði mark Rosenborg, Vålerenga og Odd Grenland á árunum 1998 til 2010 og vann samtals sjö meistaratitla með tveimur fyrrnefndu liðunum. Árni lék 233 leiki í deildinni með þessum liðum.

Veigar Páll Gunnarsson lék í tíu ár í deildinni með Strömsgodset, Stabæk og Vålerenga, og auk þess eitt ár í 1. deild. Hann spilaði 176 úrvalsdeildarleiki og 28 leiki í 1. deildinni.

Kristján Örn Sigurðsson er hinsvegar sá eini fyrir utan Indriða og Árna sem hefur náð 200 úrvalsdeildarleikjum í Noregi. Kristján lék nákvæmlega 200 leiki í deildinni með Brann og Hönefoss, á átta árum. Hann spilaði auk þess tvö tímabil með Hönefoss í 1. deild og 56 leiki þar, og er því næstefstur Íslendinga í samanlögðum deildaleikjum í Noregi.

Næstir á eftir þessum koma Birkir Már Sævarsson, Ólafur Örn Bjarnason, Pálmi Rafn Pálmason og Stefán Gíslason sem allir eiga að baki sjö tímabil í norsku úrvalsdeildinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert