Theódór Elmar semur við AGF

Theódór Elmar Bjarnason hefur spilað sinn síðasta leik með Randers.
Theódór Elmar Bjarnason hefur spilað sinn síðasta leik með Randers. Ljósmynd/randersfc.dk

Landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason hefur ákveðið að yfirgefa danska úrvalsdeildarliðið Randers og hefur gert samkomulag við AGF um að gera tveggja ára samning við félagið.

Fram kemur á vef Randers að Theódór hafi óskað eftir því að framlengja ekki samning sinn við félagið og hann hefur þar með leikið sinn síðasta leik með liðinu því hann tekur út leikbann í síðustu umferðinni sem fram fer um næstu helgi.

Á vef AGF kemur svo fram að Theódór Elmar hafi náð samkomulagi um tveggja ára samning en samningur hans við Randers rennur út þann 30. þessa mánaðar. AGF er í öðru sæti í dönsku B-deildinni og hefur tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni. Fyrir hjá félaginu er Helgi Valur Danílesson.

„Þetta er spennandi verkefni sem AGF er að gera. AGF er stórt félag sem hefur mikla möguleika og er með ástríðufulla stuðningsmenn sem ég hlakka til að spila fyrir. Ég held að liðið henti mér fullkomlega,“ segir Theódór Elmar á vef AGF.

Theódór, sem er 28 ára gamall, lék sinn fyrsta leik með Randers í ágústmánuði 2012 og hefur hann leikið alls 85 leiki með liðinu og skorað í þeim 4 mörk. Áður en Elmar kom til Randers lék hann með Gautaborg í Svíþjóð, Lyn í Noregi og Celtic í Skotlandi en hann er uppalinn KR-ingur.

Hann er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Tékkum á Laugardalsvellinum þann 12. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert