Færeyjar unnu Grikkland aftur

Gunnar Nielsen, markvörður Stjörnunnar, stóð að sjálfsögðu í marki Færeyinga …
Gunnar Nielsen, markvörður Stjörnunnar, stóð að sjálfsögðu í marki Færeyinga í kvöld. mbl.is/Kristinn

Færeyingar gerðu sér lítið fyrir og unnu Grikki öðru sinni, í þetta sinn á heimavelli, í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu í kvöld.

Heimamenn fögnuðu 2:1-sigri, dyggilega studdir á Þórsvelli í Þórshöfn. Hállur Hánsson skoraði fyrra mark Færeyja eftir hálftíma leik og hinn 19 ára gamli Brandur Olsen, bikarhetja FC Köbenhavn í Danmörku, bætti við seinna markinu á 70. mínútu. Sokratis Papastathopoulos minnkaði muninn þegar fimm mínútur lifðu leiks.

Þjóðirnar leika í F-riðli en í þessum sama riðli gerðu Norður-Írland og Rúmenía markalaust jafntefli, og fyrr í dag vann Ungverjaland 1:0-útisigur á Finnlandi. Færeyjar eru í 4. sæti riðilsins með 6 stig eftir sigrana tvo. Rúmenía er efst með 14 stig, Norður-Írar hafa 13, Ungverjar 11, Finnar 4 og fyrrverandi Evrópumeistarar Grikkja aðeins 2.

Danir unnu Serba og Schürrle með þrennu

Í I-riðli vann Danmörk 2:0-sigur á Serbíu með mörkum frá Yussuf Poulsen og Jakob Poulsen. Portúgal er efst í þeim riðli með 12 stig, Danmörk er með 10, Albanía 7, en Serbía og Armenía aðeins 1 stig hvort. Albanía á leik til góða á hin liðin.

André Schürrle skoraði svo þrennu fyrir Þjóðverja sem rúlluðu yfir Gíbraltar, 7:0, í D-riðli. Max Kruse skoraði tvö og þeir Ilkay Gündogan og Karim Bellarabi eitt hvor. Pólland er efst í riðlinum með 14 stig, Þýskaland er með 13, Skotland 11, Írland 9, Georgía 3 og Gíbraltar 0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert