Lið Kamerún kom skemmtilega á óvart í kvöld með því að sigra Sviss, 2:1, í lokaumferð C-riðils heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu í Edmonton í Kanada. Kamerún tryggði sér þar með annað sæti riðilsins sem Sviss hefði náð með jafntefli.
Heimsmeistarar Japans unnu Ekvador 1:0 og fengu 9 stig í riðlinum, Kamerún fékk 6, Sviss 3 en Ekvador ekkert. Japan, Kamerún og Sviss fara öll áfram í 16-liða úrslit. Sviss er öruggt, vegna markatölu, með að verða fyrir ofan að minnsta kosti tvö lið sem enda í þriðja sæti riðlanna og það nægir.
Tap Sviss þýddi ennfremur að Holland er komið í 16-liða úrslitin eftir að hafa hafnað í þriðja sæti í A-riðli keppninnar.
Sviss, sem sló Ísland út í undankeppninni, virtist á góðri leið þegar Ana Crnogorcevic skoraði á 24. mínútu og staðan var 1:0 í hálfleik. Gabrielle Onguene jafnaði fyrir Kamerún í byrjun síðari hálfleiks og lagði svo upp sigurmarkið fyrir Madeleine Ngono á 62. mínútu.
Japan lenti í merkilega miklu basli með lið Ekvadors sem hafði fengið á sig sextán mörk gegn Sviss og Kamerún. Yuki Ogimi, leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi, skoraði eina markið strax á 5. mínútu en leikur liðanna fór fram í Winnipeg.
Nú liggur fyrir að Kína og Kamerún munu mætast í 16-liða úrslitum keppninnar en það er eina viðureignin sem er komin alveg á hreint þar.
Frammistaða Kamerún vekur athygli á Twitter, á Íslandi sem annar staðar:
Cameroon stelur senunni á HM kvenna. Magnað lið. Allir elska gott lið frá Afríku. Gott fyrir leikinn #FIFAWWC
— Freyr Alexandersson (@freyrale) June 16, 2015
Terrific performance by Cameroon in #WWC2015 to beat Switzerland. Onguene outstanding. Some wonderful football in that game
— Oliver Holt (@OllieHolt22) June 16, 2015
Super impressed by Cameroon - such speed and work effort - huge congrats and well deserved #WomensWorldCup
— Thora Helgadottir (@thorahelga) June 16, 2015