Fyrir sex árum var ég staddur í þúsund vatna landinu, Finnlandi, nánar tiltekið í Tampere. Þar var íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu með aðsetur og tók í fyrsta skipti þátt í lokakeppni Evrópumótsins.
Eftir fyrsta leik Íslands, gegn Frakklandi, skrifaði ég pistil þar sem ég vitnaði í orð bálreiðrar íslenskrar landsliðskonu en í búningsklefanum eftir leikinn sagði hún, meira en stundarhátt: „Ég vil fá dómara með typpi.“
Ástæðan var frammistaða rússneska dómarans í umræddum leik. Engum sem fylgdist með honum duldist að sú rússneska var „langt frá því að vera í þeim gæðaflokki sem hæfir úrslitakeppni Evrópumóts þar sem tólf bestu þjóðir álfunnar etja kappi. Hún hafði enga tilfinningu fyrir leiknum sem slíkum, ákvarðanir um aukaspyrnur voru tilviljanakenndar og margar sérkennilegar, sem og fleiri tilburðir hennar, og það var augljóst að hún var ekki með þann bakgrunn eða reynslu í íþróttinni sem til þarf,“ eins og ég skrifaði í umræddum pistli.
Íslenska landsliðskonan vildi fá „alvöru“ dómara þegar komið var í stærsta mót Evrópu og meira í húfi en nokkru sinni fyrr.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér eftir að hafa fylgst með heimsmeistaramóti kvenna í Kanada undanfarið, sérstaklega eftir að hafa horft á undanúrslitaleikina tvo í þessari viku. Þar voru dæmdar fjórar vítaspyrnur og þrjár þeirra voru allvafasamar, svo ekki sé meira sagt. Mér dettur hinsvegar ekki í hug að fullyrða að karlkyns dómarar hefðu ekki getað gert nákvæmlega sömu mistökin. En þetta vekur spurninguna um hvort bestu knattspyrnukonur heims eigi ekki að fá bestu dómara heims – sérstaklega þegar komið er í sjálf undanúrslitin á heimsmeistaramótinu.
Sjá viðhorfsgrein Víðis Sigurðssonar í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.