Hollenska knattspyrnufélagið NEC Nijmegen hefur staðfest að það hafi samið við íslenska landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór Halldórsson til tveggja ára en hann kemur nú þangað frá Sandnes Ulf í Noregi.
Hannes var einmitt rétt í þessu að ljúka kveðjuleik sínum með Sandnes Ulf. Hann gerði það á viðeigandi hátt og hélt hreinu í góðum útisigri á Hönefoss, 1:0. Hannes skilur við Sandnes Ulf í góðri stððu en liðið er í öðru sæti B-deildarinnar.
NEC er nýliði í hollensku úrvalsdeildinni, en er reyndar komið aftur þangað eftir aðeins eins árs fjarveru og liðið vann mikinn yfirburðasigur í B-deildinni í vetur. Kristján Gauti Emilsson, fyrrverandi leikmaður FH, er í hópi félagsins.