Matthías semur við Rosenborg á morgun

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/ik.start.no

Matthías Vilhjálmsson leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Start er á leið til norska stórliðsins Rosenborg. Hann mun skrifa undir samning á morgun að lokinni læknisskoðun hjá félaginu samkvæmt öruggum heimildum mbl.is.

Samningur Matthíasar við Rosenborg mun gilda út árið 2017 en hann hefur leikið með Start frá árinu 2012 og hefur átt sérlega góðu gengi að fagna með því. Matthías hefur skorað 49 mörk í 108 leikjum með liðinu. Hann er markahæsti leikmaður Start á tímabilinu en hann hefur skorað 7 mörk í 5 leikjum.

Matthías hafnaði á dögunum freistandi tilboði frá rússneska liðinu Ufa og í kjölfarið settu forráðamenn Rosenborg sig í samband við Start. Fyrstu tveimur tilboðum Rosenborg í Matthías var hafnað en liðin komust að samkomulagi í dag um kaupverðið.

Rosenborg er sigursælasta lið Noregs og hefur um árabil verið eitt sterkasta liðið í Skandinavíu. Liðið hefur 22 sinnum hampað norska meistaratitlinum, síðast árið 2010. Rosenborg trónir á toppi norsku úrvalsdeildarinnar og sló KR-inga út úr 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í gær, samanlagt, 5:0.

Matthías er 28 ára gamall sem hóf feril sinn með BÍ á Ísafirði en 16 ára gamall samdi hann við FH og átti þar glæsilegan feril áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Hann hefur leikið 13 leiki með A-landsliði Íslands og hefur í þeim skorað 2 mörk.

Með liði Rosenborg leikur Hólmar Örn Eyjólfsson sem og framherjinn Alexander Söderlund en hann og Matthías léku saman með FH sumarið 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert