Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hefur ákveðið að snúa aftur til Danmerkur og leika með danska úrvalsdeildarliðinu Esbjerg, eftir eins árs dvöl hjá Helsingborg í Svíþjóð..
Þetta staðfesti Guðlaugur Victor við mbl.is nú rétt í þessu en hann skrifaði undir samning til þriggja ára. Bröndby hafði samkvæmt dönskum og sænskum miðlum einnig mikinn áhuga á að fá hann til sín en ekkert varð af því. Kaupverðið er sagt nema 5 milljónum sænskra króna, jafnvirði 77 milljóna íslenskra króna.
Guðlaugur Victor hefur komið víða við síðan hann fór frá Fylki árið 2007, þá 16 ára gamall. Hann var fyrst hjá Aarhus í Danmörku en fór þaðan til Liverpool þar sem hann lék með unglingaliði enska knattspyrnurisans.
Frá Liverpool fór Guðlaugur Victor til Skotlands og lék með Hibernian, þaðan til New York Red Bulls í Bandaríkjunum, og svo til NEC Nijmegen í Hollandi. Hann samdi svo við Helsingborg í fyrrasumar.
Guðlaugur Victor á að baki 4 A-landsleiki og ellefu leiki fyrir U21-landslið Íslands. Hann er ekki í landsliðshópnum sem nú er staddur í Amsterdam og mætir Hollandi á fimmtudaginn.