Austurríki heldur dampi í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu, en liðið gerði sér lítið fyrir og skellti Svíum á útivelli í G-riðli í kvöld, 4:1. Sigurinn fleytti þeim sömuleiðis inn í lokakeppnina og urðu þeir um leið fjórða þjóðin sem hefur tryggt sér þar sæti.
Austurríkismenn komust í 4:0 með mörkum frá David Alaba, Marc Janko og tveimur frá Martin Harnik, áður en Zlatan Ibrahimovic lagaði stöðuna fyrir Svía á lokamínútunni.
Á meðan unnu Rússan öruggan útisigur á Liecthenstein, 7:0, þar sem Artem Dzyuba skoraði meðal annars fernu, en heimamenn voru einum færri frá 40. mínútu sem munaði um minna. Sigurinn fleytti Rússum upp í annað sætið en Svíar eru í því þriðja sem gefur aðeins þátttöku í umspili.
Þá vann Svartfjallaland 2:0 sigur á Moldóvu og eru nú aðeins stigi á eftir Svíum.