Guðlaugur Victor skoraði í fyrsta leik

Guðlaugur Victor Pálsson byrjar frábærlega með Esbjerg.
Guðlaugur Victor Pálsson byrjar frábærlega með Esbjerg. mbl.is/Golli

Guðlaugur Victor Pálsson, nýr leikmaður Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni, þreytti frumraun sína með liðinu í 4:2 sigri á OB í dag, en hann fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína.

Esbjerg gerði nánast út um leikinn á fyrsta hálftímanum. Robin Soeder skoraði strax á 1. mínútu leiksins eftir sendingu Kevin Mensah og sextán mínútum síðar var Nicki Bille Nielsen búinn að bæta við öðru.

Guðlaugur Victor bætti við þriðja markinu eftir hálftíma leik. Michael Jacobsen átti þá langt innkast inn í teig og eftir smá darraðadans kom Guðlaugur knettinum í netið. Hans fyrsta mark fyrir félagið og það í fyrsta leiknum, en hann kom til félagsins frá sænska liðinu Helsingborg á dögunum.

Mensah bætti við fjórða markinu nokkrum mínútum síðar og litlu munaði að fimmta markið kæmi í kjölfarið. Kenneth Zohore minnkaði muninn fyrir OB áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks og Mohamed El Makrini bætti við öðru í byrjun þess síðari, en fleiri urðu mörkin ekki.

Lokatölur því 4:2 Esbjerg í vil en liðið er í 10. sæti með 9 stig á meðan OB er í 8. sæti með 10 stig.

Ari Freyr Skúlason og Hallgrímur Jónasson spiluðu allan leikinn í liði OB, en Ari spilaði sem vinstri bakvörður og þá var Hallgrímur vinstra megin í miðverði. Guðlaugur lék þá allan leikinn á miðjunni hjá Esbjerg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert