Mikil spenna í toppbaráttunni í Svíþjóð

Haukur Heiðar Hauksson sem er hér lengst til vinstri hafði …
Haukur Heiðar Hauksson sem er hér lengst til vinstri hafði betur gegn Kára Árnasyni í efstu deild í Svíþjóð í dag. Eggert Jóhannesson

Fimm leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag og voru fimm íslenskir leikmenn í eldlínunni í þessum leikjum. Mikil spenna er á toppi deildarinnar, en Hjálmar Jónsson, Arnór Ingvi Traustason og Haukur Heiðar Hauksson heyja harða baráttu um sænska meistaratitilinn með liðum sínum.

Hjálmar Jónsson og félagar hans hjá IFK Gautaborg misstu af tveimur stigum í toppbaráttu deildarinnar þegar liðið gerði 1:1 jafntefli gegn Halmstad. Hjálmar Jónsson lék allan leikinn fyrir IFK Gautaborg. 

Arnór Ingvi Traustason og félagar hans í Norrköping nýttu sér feilspor IFK Gautaborg og skutust á topp deildarinnar með 3:1 sigri gegn Häcken. Arnór Ingvi lék allan leikinn fyrir Norrköping. 

Haukur Heiðar Hauksson og Kári Árnason mættust svo í Íslendingaslag og hafði Haukur Heiðar betur í þeirri baráttu. Lokatölur í leiknum urðu 2:1 fyrir AIK. Haukur Heiðar og Kári léku báðir allan leikinn með liðum sínum. 

Arnór Smárason lék allan tímann með liði sínu Helsingborg sem lagði Elfsborg að velli með tveimur mörkum gegn einu. 

Norrköping er efst eftir þessa umferð með 60 stig, IFK Gautaborg er tveimur stigum á eftir Norrköping með 58 stig og AIK er með 57 stig þegar aðeins þremur umferðum er ólokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert