Bið Arons nær 37 dögum

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson.
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Eggert

Allir leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu virðast hafa komist nokkuð heilir heilsu frá leikjum með félagsliðum sínum um helgina, þeim síðustu fyrir landsleikina við Lettland og Tyrkland.

Ísland mætir Lettum á laugardag og Tyrkjum þremur dögum síðar, í síðustu leikjum undankeppni EM.

Helstu áhyggjur varðandi liðið beinast að fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni, sem reyndar verður í banni gegn Lettum. Spili hann gegn Tyrkjum, eins og fastlega má búast við, verður það fyrsti byrjunarliðsleikur hans í 37 daga, eða frá síðasta landsleik. Aron hefur nánast verið í frosti hjá Cardiff, en hann sat á varamannabekknum um helgina og hefur aðeins leikið 25 mínútur í ensku B-deildinni alla þessa leiktíð.

Líklegt verður að teljast að Emil Hallfreðsson komi inn í byrjunarlið Íslands gegn Lettum í stað Arons. Emil er kominn á fulla ferð eftir að hafa misst af síðustu landsleikjum vegna meiðsla, og spilaði 90 mínútur í ítölsku A-deildinni um helgina. Gylfi Þór Sigurðsson var að vanda í byrjunarliði Swansea þegar liðið gerði jafntefli við Tottenham, og lék í 75 mínútur. Hann á enn eftir að skora úr opnum leik í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert