Hugsar sér til hreyfings

Jón Guðni Fjóluson í búningi Sundsvall.
Jón Guðni Fjóluson í búningi Sundsvall. Ljósmynd/gifsundsvall.se

Jón Guðni Fjóluson, miðvörður Sundsvall, er samningslaus um áramótin og sem stendur bendir fátt til þess að hann verði áfram hjá félaginu. Jón var á dögunum tekinn út úr byrjunarliðinu og miðað við samskipti hans við þjálfara liðsins, þá virðist sú ákvörðun hafa verið tekin af yfirstjórn félagsins en ekki þjálfaranum.

„Hann setti mig á bekkinn og sagði mér að það væri ekki út af lélegri spilamennsku. Eitthvað meira virðist því vera á bak við það og samningurinn er náttúrlega að renna út. Ég reikna því ekki með að vera í liðinu í síðustu tveimur leikjunum,“ sagði Jón Guðni þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans til Svíþjóðar. Sundsvall gæti ennþá fallið úr efstu deild þó að sá möguleiki sé frekar langsóttur. Liðið er fjórum stigum yfir ofan umspilssætið þegar tvær umferðir eru eftir.

Jón hefur áhuga á því að reyna fyrir sér annars staðar eftir þrjú ár hjá Sundsvall. En hann útilokar þó ekki að semja aftur við félagið en telur það ólíklega niðurstöðu eins og sakir standa.

„Ég loka ekki alveg á þann möguleika en mig langar að prófa eitthvað nýtt og sjá hvort ég komist hærra. Ef eitthvað slíkt kemur upp þá þarf ég að skoða hvort það henti fyrir mig og mína fjölskyldu. Mikilvægast í þessu er að vera einhvers staðar þar sem maður fær að spila. Maður vill fyrst og fremst fá að spila fótbolta. Þess vegna er maður í þessu en auðvitað er það einnig forsenda fyrir því að geta sýnt landsliðsþjálfurunum hvað maður getur,“ sagði Jón en samningur hans gildir út árið.

Áhugasöm félög hafa því haft tíma frá því síðsumars til að setja sig í samband við umboðsmann Jóns og hann segist hafa heyrt af einhverjum áhuga. Hann hafnaði þreifingum Sundsvall um áframhaldandi samning og er ekki í viðræðum við félagið eins og er. „Einhverjar viðræður fóru af stað en þær komust aldrei á neitt flug. Mér fannst það sem þeir buðu ekki vera það spennandi.“

Aftonbladet birti á dögunum viðtal þar sem Jón lýsti óánægju sinni með að vera tekinn út úr liðinu og tók sterkt til orða. Hann sá eftir því og hreinsaði loftið.

„Ég kom fullharkalega fram enda var kannski ekki sniðugt að fara í viðtal strax eftir leik þegar maður er pirraður. Ég fór í viðtal hjá staðarblaðinu daginn eftir og baðst afsökunar á því hvernig ég hagaði mér. Það var ekki sanngjarnt af mér að hrauna yfir allt og alla, né hvernig ég gerði það. Þetta var mál bara afgreitt daginn eftir og ekkert varð meira úr því,“ sagði Jón Guðni Fjóluson ennfremur við Morgunblaðið í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert