Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir hefur verið tilnefnd sem besti leikmaður norska kvennafótboltans eftir frábæra frammistöðu með liði Avaldsnes á tímabilinu sem senn fer að ljúka.
Hólmfríður er ásamt tveimur öðrum tilnefnd sem besti leikmaðurinn en hún hefur skorað níu mörk í 18 leikjum á tímabilinu fyrir Avaldsnes en þrátt fyrir að tvær umferðir séu eftir af deildinni er þegar ljóst að liðið mun enda í 2. sæti deildarinnar.
Hólmfríður var einnig tilnefnd sem besti sóknarmaður deildarinnar.
Guðbjörg Gunnarsdóttir er þá tilnefnd sem besti markvörður deildarinnar ásamt tveimur öðrum en hún ver mark meistaraliðs Lilleström. Liðið hefur aðeins fengið 12 mörk á sig í þeim 20 leikjum sem búnir eru. Guðbjörg hélt markinu meðal annars hreinu í fyrstu sex leikjum deildarinnar og hefur haldið varamarkverði norska landsliðsins, Nora Gjøen, á bekknum.