Goðsögn skammar Messi

Messi og Luis Suárez fagna markinu.
Messi og Luis Suárez fagna markinu. AFP

Brasilíumaðurinn Roberto Carlos fyrrverandi leikmaður Real Madrid segir að Lionel Messi hafi sýnt mótherjum sínum mikla óvirðingu þegar hann framkvæmdi vítaspyrnu í 6:1 sigri Barcelona gegn Celta Vigo í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu um síðustu helgi.

Í stað þess að skjóta á markið úr vítaspyrnunni renndi Messi boltanum til hliðar og þar tók Luis Suárez við boltanum og kom honum í netið.

Carlos segir að Real Madrid myndi ekki komast upp með að framkvæma þannig vítaspyrnu og liðið yrði gagnrýnt harkalega fyrir að gera það.

„Ef við tækjum svona vítaspyrnu eins og Messi á Bernabéu þá væri það virðingarleysi,“ sagði Carlos við spænska fjölmiðla en hann lék í níu ár með Real Madrid og varð fjórum sinnum spænskur meistari með því og vann Meistaradeildina í þrígang.

Carlos er spilandi þjálfari hjá Delhi Dynamos á Indlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert