„Getum ekki einu sinni unnið Ísland“

Hollenska landsliðið átti ekki möguleika gegn Íslandi.
Hollenska landsliðið átti ekki möguleika gegn Íslandi. JOHN THYS

Besti knattspyrnumaður Hollands frá upphafi, Johan Cruyff, vandar hollenska landsliðinu ekki kveðjurnar í pistli sem hann ritaði niður í dag. Pistillinn birtist á heimasíðu kappans.

Hollenska landsliðið er í sögulegri lægð en liðinu mistókst að tryggja sér þátttökuseðil á EM sem fer fram í Frakklandi í sumar. Ísland, Tékkland og Tyrkland komust öll á lokamótið, sem verður að teljast mikil vonbrigði fyrir Holland sem hefur verið með lið í hæsta gæðaflokki síðustu áratugi.

Cruyff furðar sig á því hvernig slíkt getur gerst, en liðið hefur þrisvar komist í úrslitaleik HM og þá vann liðið Evrópumótið í Þýskalandi árið 1988.

„Það er sama gamla sagan aftur. Um leið og hollenska liðið byrjar að sækja þá lendir liðið í klandri, hvort sem það er í hollensku deildinni eða í Evrópu,“ sagði Cruyff á heimasíðu sinni.

„Afleiðingarnar eru dramatískar. Af þeim 48 liðum sem eftir eru í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni þá er aðeins eitt hollenskt lið eftir. Það er PSV sem náði góðum úrslitum gegn Atletico Madrid, en það er af því liðið aðlagaðist leikstíl Atletico.“

„Það var sama sagan þegar liðið mætti Manchester United og þegar Holland náði þriðja sætinu á HM. Öll lið hafa aðlagast þessari taktík, þar sem liðin geta komið sterkari liðunum á óvart, en eiga svo í erfiðleikum með að sigra lið sem eru slakari.“

„Þetta hefur ekkert með gæði leikmanna að gera. Þetta fer allt eftir því hvaða taktík þjálfarinn kemur til með að spila. Allir þjálfarar eru að gera þetta og þetta tengist því hvernig þjálfunin er að þróast. Þetta er stórt vandamál fyrir Holland ef þróunin er svona, því þetta hefur ekkert að gera með peningamun milli deilda. Það er ljóst að við getum ekki unnið Barcelona, en núna getum við ekki einu sinni unnið Ísland, Tékkland og hvað þá Molde,“ sagði Cruyff að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert