Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið til austurríska úrvalsdeildarliðsins Rapid Vín en þetta staðfesti Andreas Müller, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, í dag.
Austurríska liðið kom með tilboð í Arnór undir lok apríl en viðræður hafa gengið yfir síðustu daga og var þá Arnór búinn að lýsa yfir áhuga sínum á að fara til Austurríkis.
Müller staðfesti við fjölmiðla í dag að samkomulag væri í höfn við Norrköping en þá á þó enn eftir að skrifa undir samninga.
Arnór, sem er fæddur árið 1993, hefur verið lykilmaður í liði Norrköping síðustu tvö árin en hann var deildarmeistari með liðinu á síðustu leiktíð.
Þá hefur hann verið að spila frábærlega með íslenska A-landsliðinu en það má búast við því að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar Íslands, velji hann í 23 manna hópinn fyrir Evrópumótið í sumar.