Messi er hættur

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu, tilkynnti eftir ósigur Argentínumanna gegn Síle í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í knattspyrnu í nótt að ferli hans með landsliðinu væri lokið.

Staðan var 0:0 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en í vítaspyrnukeppninni hafði Síle betur þar sem Messi skaut yfir úr sinni spyrnu.

Bið Argentínumanna eftir stórum titli heldur þar með áfram en þeir hafa beðið í 23 ár.

„Þetta er erfið stund fyrir mig og liðið og það er erfitt að segja þetta en þetta er búið með argentínska landsliðinu,“ sagi Messi sem tapaði einnig úrslitaleik í keppninni árið 2007.

„Ég hef gert allt sem ég get. Ég hef farið í fjóra úrslitaleiki og það er sárt að hafa aldrei orðið meistari,“ sagði Messi sem er 29 ára gamall og fimmfaldur handhafi titilsins besti fótboltamaður heims.

Messi lék 112 leiki með argentínska landsliðinu og skoraði í þeim 55 mörk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert