Fulham er fullkominn staður fyrir mig

Ragnar fagnar marki sínu í leiknum gegn Englandi á EM …
Ragnar fagnar marki sínu í leiknum gegn Englandi á EM í sumar. AFP

„Ég tel að Fulham sé fullkominn staður fyrir mig að koma til og ég er gríðarlega ánægður með þessa niðurstöðu. Þetta er algjör draumur,“ sagði landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson við Morgunblaðið í gær en hann hafði þá nýlokið við að skrifa undir samning við enska B-deildarliðið Fulham til tveggja ára með möguleika á einu ári til viðbótar.

Ragnar kemur til Fulham frá rússneska liðinu Krasnodar sem hann hefur leikið með við góðan orðstír frá árinu 2014. Hann átti tæp tvö ár eftir af samningi sínum við rússneska liðið en hann hafði ekki farið leynt með það að hann vildi reyna fyrir sér á Englandi.

Lengi átt mér þann draum að spila á Englandi

,,Ég hef lengi átt mér þann draum að spila á Englandi og nú er sá draumur að rætast. Ég tel mig vera kominn á góðan stað. Fulham er flott félag sem á sér mikla og góða sögu og ekki skemmir fyrir að það er staðsett í London. Vissulega er liðið í næstefstu deild en allir vita að sú deild er sterk og ég tel Fulham eiga góða möguleika á að fara upp. Það yrði gríðarlega gaman að vera þátttakandi í því. Það voru tvö til þrjú lið í ensku úrvalsdeildinni sem settu sig í samband við umboðsmann minn en Fulham var áhugasamast og fór alla leið,“ sagði Ragnar en meðal þeirra liða sem voru með miðvörðinn sterka í sigtinu voru Swansea og Crystal Palace.

Nánar er rætt við Ragnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert