Portúgalinn Cristiano Ronaldo var óánægður með að vera skipt af leikvelli í leik Real Madrid og Las Palmas í spænsku knattspyrnunni í gærkvöldi. Móðir kappans, Doloris Aveiro, hvetur hann til að halda áfram að berjast.
Real Madrid gerði 2:2-jafntefli við Las Palmas í gærkvöldi en þetta var annar jafnteflisleikur liðsins í röð. Ronaldo var skipt af leikvelli í stöðunni 2:1 fyrir Madrid þegar 18 mínútur voru eftir og fylgdist með síðustu mínútum leiksins af varamannabekknum.
„Stundum þarf ég að taka hann af leikvelli og við ákváðum að gera það í kvöld,“ sagði Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, eftir leikinn í gær.
Stjórinn sagðist hafa verið með hugann við næsta leik en Madridingar sækja Dortmund heim í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. „Við eigum leik á þriðjudaginn. Ég tók hann af velli með það í huga. Ég veit að hann vill spila alla leiki, alltaf. Stundum þarf hann þó að hvíla sig,“ bætti Zidane við.
Móðir Ronaldos hvetur hann til að láta ekki deigan síga. „Ekki vera leiður,“ skrifaði hún á twitter og lét fylgja reiðilega mynd af syninum eftir að hann var tekinn af leikvelli í gær:
Nunca abaixe a cabeça pic.twitter.com/KKTMP9Ub5U
— Dolores Aveiro (@DoloresAveiro) September 24, 2016