Stór skandall skekur Svíþjóð

Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Nú í kvöld birtust fréttir í sænskum fjölmiðlum þess efnis að grunur léki á gríðarlegum skandal hvað varðar hagræðingu úrslita af leikmönnum í efstu tveimur deildum sænsku knattspyrnunnar.

Alls eru 43 leikmenn úr deildunum grunaðir um að hagræða úrslitum, en gefið hefur verið upp að átta leikir á síðasta ári í næstefstu deild Svíþjóðar eru í rannsókn. Meðal þess sem á að hafa gerst er að leikmaður klúðraði vítaspyrnu viljandi.

„Við verðum að fara öllu með gát þegar rætt er um málið og ekki nafngreina leikmenn á meðan við erum ekki með fullnægjandi sannanir fyrir grunsemdum okkar,“ sagði Anders Hübinette hjá sænska knattspyrnusambandinu.

Einhver félög í Svíþjóð eiga nokkra leikmenn á listanum samkvæmt fréttum og það staðfesti Hübinette, en hann sagði að unnið sé í samstarfi við félögin innan sambandsins um rannsókn málsins.

Það var í gegnum svissneska fyrirtækið Sports Radar, sem sérhæfir sig í útreikningum á mögulegum úrslitum og vinnur náið með Evrópska knattspyrnusambandinu UEFA, sem sænsku miðlarnir Dagens Nyheter og Mandate Review, sem er hluti af SVT-fjölmiðlasamsteypunni, komust yfir leynileg skjöl sem upplýstu um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert