Kári Árnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á förum frá sænsku meisturunum í Malmö eftir því sem Aftonbladet í Svíþjóð greinir frá. Heimildarmaður sænska miðilsins segir að Kári sé ósáttur við félagið og hafi þegar pakkað saman föggum sínum.
Malmö spilar sinn fyrsta æfingaleik á undirbúningstímabilinu í dag og var Magnus Pehrsson þjálfari búinn að gefa út að allir leikmenn myndu fá að spila. En Kári er ekki með og ekki vegna meiðsla.
Kári var á dögunum orðaður við sitt gamla félag, Rotherham í ensku B-deildinni, en einnig lið AC Omonia á Kýpur. Malmö fer í æfingaferð til Spánar eftir helgi og var Pehrsson spurður hvort Kári færi með. Hann sagðist ekki vita annað.
Heimildarmaður Aftonbladet segir hins vegar að eftir æfingu liðsins fyrir helgi hafi Kári kvatt liðsfélaga sína og tekið saman dótið sitt. Samningur Kára rennur út eftir tímabilið og honum hefur ekki verið boðinn nýr samningur.
Kári vildi ekki segja neitt að svo stöddu þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá honum.