Dagar landsliðsmannsins Theódórs Elmars Bjarnasonar sem kantmanns í dönsku úrvalsdeildinni virðast vera taldir af marka má orð þjálfara hans hjá AGF. Nú fær hann bara að spila á miðjunni, ef hann þá fær að spila, en Elmar viðurkennir sjálfur í viðtali að hann sé ekki nægilega sáttur með sinn hlut upp á síðkastið.
Elmar fékk 20 mínútur í síðasta leik sem var jafntefli gegn Viborg og kom ekkert við sögu í leik AGF gegn AaB þar á undan. Það er minna en hann sættir sig við.
„Þetta snýst ekki um að leikmaðurinn sé orðinn lélegri, heldur frekar að það sé einhver annar sem hefur staðið sig betur á vellinum. En þetta þýðir ekki að hann eigi langt í land,“ segir Glen Riddersholm, þjálfari AGF, við Tipsbladet og sagði samkeppnina á miðjusvæðinu hjá liðinu afar harða.
AGF mætir SønderjyskE á laugardag en þá heldur Elmar upp á þrítugsafmæli sitt. Eflaust vonast hann eftir því að fá byrjunarliðssæti í afmælisgjöf en hann er ekki sáttur með sinn hlut eins og er.
„Maður er alltaf ósáttur þegar maður er ekki að spila. En ég tek þessu bara eins og þetta er. Við erum með marga leikmenn í þessari stöðu. Það er búið að segja mér að ég sé í baráttunni um stöðunni á miðjunni. Þjálfarinn velur þá leikmenn sem hann telur líklegasta til árangurs. Ég verð að að sætta mig við að ég er ekki einn af þeim núna,“ sagði Elmar.