Árásin á rútuna skipulögð

Lögreglan við störf í Dortmund.
Lögreglan við störf í Dortmund. AFP

Þýska lögreglan hefur staðfest að sprengjurnar sem liðsrúta knattspyrnufélagsins Dortmund varð fyrir á leið sinni í leik gegn Mónakó í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, hafi verið skipulögð árás á rútuna. 

Þrjár sprengjur sprungu í kringum rútuna er hún lagði af stað í áttina að Westfalenstadion, heimavelli Dortmund. Spænski varnarmaðurinn Marc Bartra er sem stendur á spítala, en hann handabrotnaði í árásinni. Aðrir leikmenn sluppu ómeiddir. 

Roman Bürki, markmaður Dortmund sat við hlið Bartra í rútunni þegar sprengingarnar áttu sér stað. Hann segir að glerbrot úr rúðu sem brotnaði, hafi slasað varnarmanninn. 

„Við fórum frá hótelinu og keyrðum inn á aðalgötuna þegar við heyrðum þvílíkan hvell. Ég sat við hliðina á Bartra sem fékk glerbrot í höndina á sér. Við beygðum okkur allir niður og við vissum ekki hvað var í gangi. Það var enginn að hugsa um fótbolta á þessu augnabliki," sagði Bürki. 

Leiknum var frestað vegna atviksins og fer hann fram kl. 16:45 á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert