„Erum allir í sjokki“

Leikmenn Borussia Dortmund ganga í lögreglufylgd.
Leikmenn Borussia Dortmund ganga í lögreglufylgd. AFP

Spænski varnarmaðurinn Marc Batra, leikmaður þýska liðsins Borussia Dortmund, gekkst undir aðgerð á hendi í gærkvöld en hann handarbrotnaði í kjölfar sprengjuárásarinnar sem gerð var á liðsrútu félagsins fyrir leikinn gegn Mónakó í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Leiknum var aflýst en hann verður spilaður í dag klukkan 16.45 að íslenskum tíma.

„Við erum allir í sjokki og hugur okkar er hjá Marc. Við vonum að hann fái skjótan bata,“ er haft eftir Marcel Schmelzer, fyrirliða Dortmund á vef félagsins.

Þýska lög­regl­an hef­ur staðfest að sprengj­uárásin hafi verið skipu­lögð en við frekari rannsókn kom í ljós að sprengjurnar voru þrjár sem sprungu og í bréfi sem fannst er lýst yfir ábyrgð á árásinni en lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um bréfið.

Öryggisgæslan verður hert við leikvanginn í Dortmund í dag og þá er aukin öryggisgæsla í München en Bayern München og Real Madrid eigast við í Meistaradeildinni á Allianz Arena-vellinum í München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert