Kjartan og félagar áfram í efstu deild

Kjartan Henry Finnbogason í búningi Horsens.
Kjartan Henry Finnbogason í búningi Horsens. Ljósmynd/heimasíða Horsens

Kjartan Henry Finnbogason skoraði eitt marka Horsens sem tryggði sæti sitt í dönsku efstu deildinni í fótbolta karla með 3:1-sigri sínum gegn Vendsyssel á útivelli í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti í efstu deild á næstu leiktíð.

Fyrri leikur liðanna lyktaði með markalausu jafntefli og Horsens fór því með sigur af hólmi samtals 3:1. Kjartan Henry lék allan leikinn fyrir Horsens, en hann kom liðinu 2:1 yfir á 85. mínútu leiksins. Elfar Freyr Helgason lék fyrstu 70 mínúturnar með Horsens.

Horsens hafði áður sent Guðlaug Viktor Pálsson og félaga hans hjá Esbjerg niður um deild með sigri í einvígi liðanna um að forðast fall úr efstu deild.

Kjartan Henry skoraði tvö mörk í 3:2 sigri í seinni leik liðanna í því einvígi og hefur hann því lagt sín lóð á vogarskálina við að halda Horsens í efstu deild á næsta keppnistímabili. Horsens var nýliði í deildinni í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert