Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason skrifaði í morgun undir þriggja ára samning við rússneska liðið Rostov með möguleika á eins árs framlengingu.
Sverrir gengur í raðir félagsins frá Granada á Spáni þar sem hann dvaldist til skamms tíma en liðið féll úr efstu deild Spánar nú í vor. Áður lék Sverrir Ingi hjá Lokeren í Belgíu.
Talið er að Sverrir hafi verið með klásúlu í samningi sínum upp á 2,6 milljónir evra hjá Granada.
„Ég er augljóslega bara mjög ánægður og þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri til að spila með Rostov. Þetta er líklega einn af bestu dögum lífs míns,“ sagði Sverrir Ingi við heimasíðu Rostov.
Rostov lenti í 6. sæti efstu deildar Rússlands á síðustu leiktíð og keppti í Meistaradeild Evrópu en féll úr leik í riðlakeppninni. Eftir það féll liðið úr leik gegn Manchester United í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Myndskeið af Sverri ásamt föruneyti sínu, sem innihélt m.a. Eið Smára Guðjohnsen, má sjá hér að neðan.