„Gerir stöðu mína léttari"

Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson. Eggert Jóhannesson

Flest bendir til þess að landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson hafi spilað sinn síðasta leik með sænska liðinu Hammarby sem hann hefur leikið með síðustu tvö árin eftir að hann kom til þess frá danska liðinu Randers.

Ögmundur, sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Hammarby, er í viðræðum við nokkur félög en fregnir bárust af því fyrir helgina að þjálfari Hammarby hefði gefið Ögmundi frí til að fara yfir sín mál í kjölfar þess að Johan Wiland, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Svía, gekk í raðir félagsins í síðustu viku og stóð á milli stanganna gegn Jönköping um nýliða helgi.

„Það hafa verið þreifingar í allt sumar um að ég sé á förum frá Hammarby. Hammarby hafði tækifæri til að fá Wiland núna og það er bara allt í lagi fyrir mig. Það gerir stöðu mína vonandi léttari að fara til annars liðs og það er bara í vinnslu. Eins og staðan er núna eru viðræður í gangi við aðra klúbba og ég vona að það komi lending hvað það varðar í þessari viku. Þetta eru félög utan Skandinavíu sem ég er að ræða við. Af virðingu við þau get ég ekki nefnt nein nöfn í þessu sambandi.

Ég býst fastlega við að ég hafi spilað minn síðasta leik með Hammarby en fótboltaheimurinn er óútreiknanlegur og þetta gæti hæglega breyst á morgun. Maður er orðinn ágætlega sjóaður í þessum bransa þar sem ekkert er öruggt fyrr en ritað hefur verið undir samning,“ sagði Ögmundur við Morgunblaðið í gær.

Fyrir leikinn gegn Jönköping um helgina hafði Ögmundur spilað 61 deildarleik í röð með Stokkhólmsliðinu þar sem hann hefur spilað með tveimur löndum sínum, Birki Má Sævarssyni og Arnóri Smárasyni.

Ögmundur er 28 ára gamall uppalinn Framari sem lék í marki Safamýrarliðsins frá 2006-2014 áður en hann gerðist atvinnumaður. Hann á að baki 14 leiki með íslenska A-landsliðinu og lék síðast á milli stanganna með því í 1:0-sigri gegn Írum í vináttuleik í marsmánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert