Lars fékk rótburst gegn Þýskalandi

Lars Lagerbäck ræðir við Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands.
Lars Lagerbäck ræðir við Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands. AFP

Lars Lagerbäck mátti þola stórtap með lærisveinum sínum hjá norska karlalandsliðinu í knattspyrnu í kvöld þegar liðið mætti heimsmeisturum Þjóðverja í C-riðli undankeppni HM í kvöld. Þjóðverjar unnu gríðarlega öruggan sigur, 6:0.

Staðan eftir 20 mínútur var orðin 3:0, en þeir Mesut Özil, Julian Draxler og Timo Werner skoruðu mörkin og Werner bætti við öðru marki fyrir hlé. Staðan 4:0 í hálfleik. Leon Goretzka skoraði fimmta mark Þjóðverja í byrjun síðari hálfleiks og Mario Gómez það sjötta tíu mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 6:0.

Þjóðverjar eru með 24 stig í efsta sæti C-riðils en Norður-Írland er í öðru sæti með 19 stig eftir sigur gegn Tékkum í kvöld, 2:0, þar sem Jonny Evans og Chris Brunt skoruðu mörkin.

Norðmenn eru hins vegar í næstneðsta sæti riðilsins með sjö stig eftir átta leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert