Margir sparksérfræðingar í Noregi klóra sér í hausnum yfir þeirri ákvörðun landsliðsþjálfarans Lars Lagerbäck að velja ekki Martin Ödegaard í landsliðshópinn fyrir leikina gegn San Marinó og N-Írland í undankeppni HM.
Lagerbäck tilkynnti landsliðshópinn í dag og eins og áður sá hann ekki ástæðu til að velja Ödegaard í hópinn sem mun þess í stað spila með U21 ára liðinu. Margir eru undrandi á þessari ákvörðun Svíans en margir hafa kallað eftir því að fá Ödegaard í A-landsliðið.
„Þetta kemur mjög á óvart og er skrítið. Ég sé enga ástæðu fyrir því að velja Ödegaard ekki í hópinn. Hann er virkilega góðu formi, spilar í góðu liði í sterkri deild og hefur eiginleika sem aðrir norskir leikmenn hafa ekki,“ segir Jesper Mathisen sparkspekingur á norsku sjónvarpsstöðinni TV2.
Ödegaard er 18 ára gamall sem gekk í raðir Real Madrid árið í ársbyrjun 2015 en er í láni hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu Heerenveen.
„Hann er mjög nálægt landsliðinu. Hann hefur eiginleika sem gerir hann færan til að spila með landsliðinu en það var mitt mat núna að hann eigi frekar að spila tvo fína leiki með U21 ára liðinu gegn sterkum mótherjum og vonandi stendur hann sig vel,“ sagði Lagerbäck á fréttamannafundi í dag þegar hann tilkynnti landsliðshópinn.
Ég hef séð hann í öllum leikjum sem hann hefur spilað í röð í haust. Ég held að hann hafi sýnt hvaða eiginleika hann hefur að bera. Tæknilega er hann einn af þeim bestu sem við eigum. Það eru hlutir sem hann getur lært betur en með boltann er hann tæknilega einn af þeim bestu leikmönnum sem við höfum.“