„Það getur passað,“ sagði knattspyrnuþjálfarinn Heimir Guðjónsson við mbl.is er hann var spurður hvort hann væri mættur til Færeyja en þangað er hann kominn til þess að ræða við forráðamenn HB frá Þórshöfn um að taka við þjálfun liðsins.
„Þetta var þannig að þeir höfðu samband við mig og buðu mér að koma hingað og ræða málin. Svo er fundur á morgun og við förum yfir stöðuna. Svo sjáum við bara til,“ sagði Heimir en það var færeyski netmiðillinn in.fo sem sagði frá komu hans fyrr í dag.
„Það er ekkert komið í ljós. Ég kom hérna í hádeginu og svo tökum við þetta bara áfram á morgun,“ sagði Heimir en honum var sagt upp störfum hjá FH í byrjun þessa mánaðar eftir að hafa starfað sem aðalþjálfari frá árinu 2007. Undir hans stjórn var liðið fimm sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Áður hafði hann rakað inn titlum sem aðstoðarþjálfari og leikmaður.
„Það er yndislegt að koma hingað til Þórshafnar,“ sagði Heimir. „Færeyingar eru gott fólk,“ sagði Heimir.
HB er annað stóru liðanna tveggja í Þórshöfn og hefur verið sigursælt í gegnum tíðina en vann titilinn síðast árið 2013, þá í 22. skiptið. Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, þjálfaði liðið árið 2010.
Færeyski markvörðurinn Gunnar Nielsen, lærisveinn Heimis undanfarin tvö ár hjá FH, ólst upp hjá HB áður en hann fór til Danmerkur að leika í meistaraflokki.
Auk þess hafa þrír gamlir landsliðsmenn Færeyja sem gerðu það gott á Íslandi á árum áður allir spilað í HB en það eru þeir Uni Arge, Rógvi Jacobsen og Julian Johnsson.