Orðlaus eftir mistökin hræðilegu

Viðbrögð Sven Ulreich eftir mistökin hræðilegu.
Viðbrögð Sven Ulreich eftir mistökin hræðilegu. AFP

Sven Ulreich markvörður Bayern München á ekki sjö dagana sæla eftir þau hræðilegu mistök sem hann gerði sig sekan um í öðru marki Real Madrid gegn Bayern í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Ulreich fékk send­ingu til baka frá eig­in leik­manni en virt­ist gleyma regl­un­um um stund­ar­sak­ir, fyrst ætlaði hann að grípa bolt­ann með hönd­um en áttaði sig svo og reyndi þá að sparka til hans en það var um sein­an. Benzema hirti bolt­ann af hon­um og skoraði í autt markið.

Oliver Kahn fyrrverandi markvörður Bayern München og þýska landsliðsins varð orðlaus þegar sá atvikið en hann er einn af sparkspekingum þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ZDF.

„Ég hef enga skýringu á því hvernig þetta gat gerst. Þetta var algjört „blackout“. Hann verður að reyna að gleyma þessu þó svo að það muni taka einhvern tíma fyrir hann,“ sagði Kahn eftir leikinn.

Ulreich hefur staðið á milli stanganna hjá Bayern München megnið af tímabilinu eftir að Manuel Neuer varð fyrir alvarlegum meiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert