Zinedine Zidane sagði á fréttamannafundi í Madríd rétt í þessu að leikmenn Real Madrid hefðu þurft á breytingum að halda og þess vegna hefði hann ákveðið að hætta störfum sem knattspyrnustjóri liðsins.
„Þegar á móti blæs hugsar maður málin vandlega og mín niðurstaða er sú að leikmennirnir þurfi á breytingum að halda. Þeir vita allir af þessu og ég ræddi málið sérstaklega við Sergio Ramos.
Við gerum alltaf meiri kröfur til leikmannanna og að því kemur að maður getur ekki beðið um meira. Þeir þurfa á annari rödd og annari aðferðafræði að halda til að halda áfram á sigurbraut. Allt er breytingum háð og þess vegna komst ég að þessari niðurstöðu. Ég er ekki að svipast um eftir öðru liði. Ég veit að þetta lítur einkennilega út en ég tel að ákvörðun mín sé sú rétta,“ sagði Zidane á fundinum sem hann boðaði til með stuttum fyrirvara.