Bendtner sakaður um að kjálkabrjóta leigubílstjóra

Eiður Aron Sigurbjörnsson og Nicklas Bendtner í skallaeinvígi á Hlíðarenda …
Eiður Aron Sigurbjörnsson og Nicklas Bendtner í skallaeinvígi á Hlíðarenda í sumar, í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Morgunblaðið/Hari

Norska knattspyrnufélagið Rosenborg hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna „óheppilegs atviks í Kaupmannahöfn sem Nicklas Bendtner tengdist“.

Bendtner, sem er leikmaður Rosenborgar, er í danska blaðinu Ekstra Bladet sagður hafa verið handtekinn á sunnudag vegna árásar á leigubílstjóra sem kjálkabrotnaði og varð að gangast undir aðgerð. Bendtner var síðar sleppt.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bendtner kemst í fréttirnar af óæskilegum ástæðum en í pistli frá yfirmanni íþróttadeildar Ekstra Bladet er farið yfir hvernig þessi fyrrverandi leikmaður Arsenal virðist alltaf vilja koma sér í vandræði, hvort sem er með því að keyra fullur, fremja skemmdarverk eða beita ofbeldi. Vissulega sé ekki búið að dæma í þessu nýjasta máli sem hann tengist en bara það að hann sé enn og aftur flæktur í slíkt mál sýni hve dómgreindarleysi hans sé mikið.

Bendtner er ekki í danska landsliðinu sem vann Wales í gærkvöld í Þjóðadeildinni og Ekstra Bladet segir ljóst að þangað snúi hann ekki aftur.

Í fyrrnefndri yfirlýsingu Rosenborgar er ekkert sagt um hvað gerðist á laugardaginn, heldur aðeins að Bendtner hafi haft samband við félagið og sagt sína sögu. Í yfirlýsingunni segir að Bendtner hafi verið í Kaupmannahöfn til að ná sér af stað eftir meiðsli og að hann hafi átt að snúa aftur til Þrándheims nú í byrjun vikunnar. Farið verði yfir málið í rólegheitum. Segir í yfirlýsingunni að félagið treysti því að fari málið fyrir dómstóla í Danmörku þá verði tekið á því með sanngjörnum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert